Hreyfing

TÆKI OG BÚNAÐUR FRÁ

Hreyfing leitaði til okkar 2019 og þá upprunalega til þess að endurnýja æfingasalinn á efri hæðinni sem að hugsaður er fyrir lyftingar og svokallaðar functional æfingar. Salurinn var búinn flottasta tækjabúnaði sem völ var á en breytingar í þjálfun kölluðu á meira rými í ,,functional” æfingar þar sem áhersla er á laus lóð, sprengikraftsæfingar, líkamsþyngdaræfingar og fleira í þeim dúr.

Eftir að hafa farið yfir salinn með Hreyfingarteyminu og ráðgjafa frá Escape fitness var ákveðið að fara í allsherjar endurnýjun á tækjabúnaði í stöðinni. Með þessari endurnýjun var þá markmiðið ekki aðeins að auka æfingarmöguleika á efri hæðinni heldur einnig að fá inn nútíma tæknilausnir með nýjustu þrektækjalínunni frá Life Fitness.

Þegar farið er í svona stóra endurnýjun þá er um margt að hugsa en alltaf er lykilatriðið að breytingarnar komi vel út fyrir notendurna. Þjálfarateymi Hreyfingar spilaði því lykilhlutverk í að koma með hugmyndir að útfærslum sem að koma sér vel fyrir bæði þá sem æfa sjálfir í sölunum sem og þá sem koma til þeirra í einkaþjálfun.

Til að aðstoða okkur við ferlið fengum við ráðgjafa frá Life Fitness í heimsókn en hann hefur áratuga reynslu í hönnun æfingastöðva og hefur komið að hönnun og skipulagningu margra af vinsælustu æfingastöðvum heims. Eftir að hafa skoðað rýmin fram og til baka og farið djúpt í þá æfingarmöguleika sem yrðu að vera til staðar þá kom hugmynd frá Hreyfingarteyminu um að færa teygjusvæðið niður á neðri hæð og nýta svæðið undir lóðabunkatækin. Þessi breyting gerði það að verkum að nú er allur lyftingarsalurinn á efri hæðinni nothæfur í ,,functional” æfingar og er með því einhver glæsilegasti salur af slíkri gerð hér á landi og þó víðar væri leitað.

Til að aðstoða okkur við hugmyndavinnu unnum við 2D uppköst af staðsetningum tækja – slíkar teikningar hjálpa gríðarlega við að finna út hvernig flæði verður í stöðinni að breytingum loknum. Þegar við vorum á lokastigi þess að ákveða uppsetninguna létum við 3D teikna rýmin til að hafa þetta enn sýnilegra.

Að lokum var pöntunin staðfest á hápunkti fyrstu covid bylgjunnar og afhending hófst svo í júlí 2020. Afhendingunni var háttað þannig að sem minnst röskun yrði á opnun stöðvarinnar – Efri hæðin var lokuð að hluta til í nokkra daga á meðan nýju gólfefni var komið fyrir en þar fyrir utan voru flest tæki sett saman í vöruhúsi Hreysti og svo skipt út í Hreyfingu án truflana.

Hér fyrir neðan eru svo myndir af verkefninu eftir að allar lykilvörurnar voru komnar inn. Við viljum þakka Hreyfingu fyrir gott samstarf og óska þeim til hamingju með stöðina sem skorar hátt á heimsvísu hvað æfingarmöguleika, útlit og þjónustu varðar.